Niðurstaðan í samræmi við megin áherslur Samiðnar

Á heimasíðu Samiðnar birtist eftirfarandi frétt þann 27. desember 2013:

„Á kjaramálaráðstefnu Samiðnar sem haldin var 20. september s.l. mótuðu fulltrúar aðildarfélaga sambandsins sameignlega stefnu varðandi endurnýjun kjarasamninganna.

Skilaboðin voru skýr: Rjúfa sjálfvirkar víxlverkanir kaupgjalds og verðlags og ná verðbólgunni niður að markmiðum Seðlabankans. Að launahækkanir skiluðu sér í auknum kaupmætti en færu ekki beint út verðlagið. Lögð var áhersla á stuttan samning og samningstíminn yrði notaður til að byggja undir samning til lengri tíma. Þetta var það umboð sem formaður Samiðnar fékk til að fara með í sameiginlega vinnu innan ASÍ.

Nú hafa verið undirritaðir kjarasamningar milli SA og aðildarfélaga innan ASÍ sem gilda í eitt ár og er hluti þess samnings samkomulag um með hvað hætti næstu kjarasamningar verði undirbúnir. Umsamdar launahækkanir eru bæði í krónutölu og prósentu enda voru áherslur mjög mismunandi um hvora leiðina ætti að fara.

Fyrir liggur að ríki og sveitarfélög munu gæta mikils aðhalds í hækkunum á gjaldskrám og mikil pressa hefur verið sett á fyrirtæki um að setja ekki launahækkanir út í verðlagið. Einnig skipta vaxtaákvarðanir Seðlabanka Íslands miklu máli og að hann sýni í verki að hann vilji spila með og trúi á forsendur samningsins.

Það má öllum vera ljóst að forsendur samningsins eru þær að allir spili með og taki fulla ábyrgð á þeim þáttum sem að þeim snúa. Sú forsenda er engin nýlunda, þannig hefur það alltaf verið en það er hins vegar þekkt að fyrirtækin hafa vikist undan ábyrgð og sett launahækkanir beint út í verðlagið.

Það sem styrkir trúna á framgang samningsins nú er að undirbúningur undir endurnýjun kjarasamninganna fer strax í gang verði samningarnir samþykktir og mun sú vinna skapa mikið aðhald að ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum.

Hvernig þessir aðilar axla sína ábyrgð ræður miklu um framhaldið og ræður úrslitum um hvort sú leið sem mótuð er með nýgerðum kjarasamningi fær framhaldslíf að ári liðnu.

Samninganefnd og formaður Samiðnar fengu skýrt umboð 20. september frá aðildarfélögum Samiðnar og hafa nú skilað samningi sem er í megindráttum í samræmi við mótaða stefnu sambandsins. Á næstu dögum verður samningurinn kynntur félagsmönnum og borinn undir atkvæði.

Verði samningurinn samþykktur hefur verið mótaður farvegur sem á að geta skilað okkur vaxandi kaupmætti og batnandi hag heimilanna þegar til lengri tíma er litið enda var það er megin tilgangur samningsins sem var undirritaður 21. desember s.l.“

 

Kynningarefni Samiðnar

917 thoughts on “Niðurstaðan í samræmi við megin áherslur Samiðnar”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *