Lög félagsins

FÉLAGSLÖG

Samþykkt á aðalfundi 24. maí 1995, með síðari breytingum.

 

Lög fyrir Iðnsveinafélag Skagafjarðar

Nafn félagsins og tilgangur

1.gr.

Félagið heitir Iðnsveinafélag Skagafjarðar. Starfssvæði þess nær yfir Skagafjarðarsýslu. Heimili þess og varnarþing er á Sauðárkróki.

2.gr.

Tilgangur félagsins er að:

a)    Sameina alla iðnaðarmenn og iðnnema á félagssvæðinu í eitt félag og vinna að hagsmunum
þeirra.

b)    Vinna að bættum kjörum félagsmanna m.a. með samningum um laun, vinnutíma og réttindi.

c)    Vinna að betri aðstæðum á vinnustöðum og efla atvinnumöguleika.

d)    Stuðla að betri iðn- og starfsmenntun í öllum starfsgreinum félagsmanna og aukinni félags-
legri þekkingu.

3.gr.

Félagið er aðili að Samiðn, sambandi iðnfélaga.

Félagsaðild og inntökuskilyrði

 

4.gr.

Rétt til inngöngu í félagið hafa þeir sem búa á félagssvæðinu, hafa sveinspróf í viðurkenndri iðngrein, önnur starfsréttindi sem félagið viðurkennir eða eru á námssamningi og starfa eða eru að hefja störf í sinni iðngrein.

Einnig faglærðir verkstjórar sem jafnframt vinna í greininni.  Inntökubeiðni skal vera skrifleg.  Stjórn félagsins afgreiðir inntökubeiðni á næsta stjórnarfundi eftir að inntökubeiðni berst.  Hafni stjórnarfundur félagsaðild getur umsækjandi skotið málinu til félagsfundar og síðan til miðstjórnar Samiðnar og ASÍ.

Aukafélagar

 

5.gr.

Heimilt er að taka í félagið þá sem búsettir eru utan félagssvæðis meðan þeir eru í vinnu á félagssvæðinu.  Þeir sem greiða til félagsins en óska ekki eftir inngöngu teljast aukafélagar.

Verkstjórar sem eingöngu sinna verkstjórn og meirihlutaeigendur fyrirtækja sem vinna sem sveinar í iðngrein sinni geta verið aukafélagar enda séu þeir ekki aðilar að samtökum atvinnurekenda.

Aukafélagar greiða fullt félagsgjald og hafa sömu réttindi og aðalfélagar að undaskyldum atkvæðisrétti og kjörgengi.

Úrsagnir

 

6.gr.

Óski félagsmaður þess að segja sig úr félaginu skal úrsögn vera skrifleg.  Úrsögn verður ekki afgreidd eftir að ákvörðun um vinnustöðvun hefur verið tekin og  þar til að vinnustöðvun hefur verið auglýst.

Um úrsögn gilda að öðru leiti sömu reglur og um inntökubeiðni.

Réttindi og skyldur félagsmanna

 

7.gr.

Réttindi félagsmanna eru:

a)    Forgangsréttur til starfa í samræmi við iðnmenntun.
b)    Málfrelsi, tillögu og atkvæðisréttur á fundum félagsins ásamt kjörgengi til trúnaðarstarfa.
c)    Upplýsingar um launakjör, réttindi, atvinnumöguleika og starfsmenntun.
d)    Þjónusta og aðstoð til að ná fram samnings- og félagslegum réttindum.

Skyldur félagsmanna eru:

a)    Að vinna að viðgangi og þróun félagsins, sýna því fullan trúnað og styðja það og stjórn þess
í öllu því er horfir til heilla og hagsbóta fyrir félagið.
b)    Að hlíta lögum félagsins, fundarsamþykktum og samningum í öllum greinum.
c)    Að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið nema sérstakar ástæður hamli.
d)    Að tilkynna til félagsins brot á samningum og stuðla að því að ófélagsbundnir menn gangi í
félagið.

Skerðing á réttindum

 

8.gr.

Geri félagsmaður sig sekan um brot á lögum félagsins eða fundarsamþykktum getur trúnaðarmanna-ráðsfundur:

a)    Áminnt viðkomandi
b)    Svipt hann rétti til fundarsetu.
c)    Svipt hann rétti til að gegna trúnaðarstörfum í þágu félagsins í tiltekinn tíma.

Ákvörðun trúnaðarmannaráðs má vísa til félagsfundar, miðstjórnar Samiðnar og ASÍ.

Félagsgjöld

 

9.gr.

a)    Aðalfundur tekur ákvörðun um félagsgjald. Félagsgjald grundvallast af hundraðshluta
heildarlauna.

b)    Ef félagsmaður skuldar fyrir eitt ár, missir hann félagsréttindi og öðlast þau ekki aftur fyrr en
hann hefur greitt skuld sína að fullu.

c)    Ef félagsmaður er veikur og án launa eða skráður atvinnulaus er hann undanþeginn greiðslu
félagsgjalds, enda sýni hann fullnægjandi skilríki þar að lútandi.

d)    Félagsmaður sem náð hefur 65 ára aldri eða hættir störfum vegna elli eða veikinda skal vera
gjaldfrír en halda öllum áunnum réttindum í félaginu.

e)    Stjórn félagsins er heimilt að fella niður félagsgjald fyrir þann tíma sem félagsmaður er í
námi án launagreiðslu.

f)    Stjórn félagsins er heimilt að lækka félagsgjald þeirra sem vinna minna en 50% starf af
heilsufarsástæðum.

Stjórn félagsins

 

10.gr.

a)    Stjórn félagsins skal skipuð 5 mönnum sem eru formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og
einn meðstjórnandi.

b)    Stjórn félagsins hefur á hendi stjórn allra mála á milli félagsfunda.

c)    Formaður er fulltrúi félagsins út á við og hefur umsjón með starfsemi félagsins.  Hann boðar
stjórnarfundi og stýrir þeim.

d)    Varaformaður gegnir störfum formanns í fjarveru hans.

e)    Ritari annast skráningu fundargerða á stjórnarfundum og hefur ábyrgð á vörslu allra
fundargagna.

f)    Gjaldkeri félagsins hefur umsjón með fjárreiðum félagsins, skráningu félagsgjalda og
greiðslu reikninga.

11.gr.

Forfallist stjórnarmaður eða stjórnarmenn skal sá sem er efstur á lista trúnaðarmannaráðs taka sæti
hans í stjórninni og síðan aðrir þeir sem næstir eru í röðinni á lista trúnaðarmannaráðs.  Stjórn félagsins
getur ráðið starfsmann til félagsins og falið honum verkefni í umboði stjórnar og ákveðið að hann sitji
stjórnarfundi.

Trúnaðarmannaráð

 

12.gr.

a)    Trúnaðarmannaráð skipa 7 menn auk stjórnar.  Varamenn í trúnaðarmannaráði skulu vera
þrír.

b)    Hlutverk trúnaðarmannaráðs er að vera stjórn félagsins til ráðuneytis í öllum mikilvægum
málum.

c)    Trúnaðarmannaráð getur tekið ákvörðun um vinnustöðvanir samkvæmt lögum um
stéttarfélög og vinnudeilur.

d)    Trúnaðarmannaráð gerir tillögu til aðalfundar um skipan stjórnar og trúnaðarmannaráðs
fyrir næsta starfsár í samræmi við 14. gr. laganna.

e)    Formaður félagsins er formaður trúnaðarmannaráðs og ritari félagsins sér um skráningu
fundargerða.

f)    Trúnaðarmannaráðsfundur er lögmætur ef til hans er boðað með dagskrá með minnst
sólarhrings fyrirvara og meirihluti ráðsmanna situr fundinn.

Fundahöld

 

13.gr.

a)    Stjórn félagsins ákveður félagsundi.  Félagsfundi skal boða með dagskrá með minnst tveggja
daga fyrirvara.  Heimilt er að boða til fundar með skemmri fyrirvara ef nauðsyn krefur t.d. í
sambandi við kjaradeilu.

b)    Félagsfundur er lögmætur og ályktunarfær, ef löglega hefur verið til hans boðað, með
auglýsingu eða bréflega, án tillits til þess hve margir eru mættir.  Á fundum ræður afl
atkvæða nema öðru vísi sé ákveðið í lögum.

c)    Stjórn félagsins er skylt að boða til félagsfundar ef minnst 15 félagsmenn óska eftir því
skriflega og fram kemur dagskrárefni.

d)    Aðalfund félagsins skal halda eigi síðar en í apríl ár hvert með eftirfarandi dagskrá:

1.    Skýrsla stjórnar.
2.    Reikningar félagsins.
3.    Kosning stjórnar, trúnaðarmannaráðs og skoðunarmanna reikninga.
4.    Ákvörðun um félagsgjald.

Kosning stjórnar og trúnaðarmannaráðs

 

14.gr.

Stjórn félagsins og trúnaðarmannaráð skulu kosin á aðalfundi ár hvert, enn fremur tveir skoðunarmenn reikninga og einn til vara.  Við val í stjórn félagsins skal gæta þess að fulltrúar ólíkra iðngreina eigi sæti í stjórn og trúnaðarmannaráði.  Trúnaðarmannaráð gerir tillögu til aðalfundar um skipan stjórnar, trúnaðarmannaráðs og skoðunarmanna reikninga.  Komi fram aðrar tillögur um menn í stjórn og/eða trúnaðarmannaráð skal fara fram bundin kosning.  Enginn telst löglega kosinn nema hann hafi fengið helming greiddra atkvæða eða fleiri.  Verði alsherjaratkvæðagreiðsla viðhöfð skal hún fara fram samkvæmt reglugerð Alþýðusambands Íslands.

Fjármál

 

15.gr.

a)    Stjórn félagsins ber ábyrgð á eignum félagsins og sér um að ávaxta sjóði þess á sem
tryggastan hátt.

b)    Sjúkra- og styrktarsjóður félagsins svo og aðrir sjóðir sem kunna að verða stofnaðir skulu
hafa sérstaka reglugerð.  Stjórn félagsins er jafnframt stjórn sjóða.

c)    Gjaldkeri félagsins hefur með höndum öll fjármál félagsins nema annað sé ákveðið í lögum
eða reglugerðum.

d)    Af félagsgjaldatekjum skal greiða venjulegan rekstrarkostnað félagsins.

e)    Stjórn félagsins skal leita samþykkis trúnaðarmannaráðsfundar varðandi öll meiriháttar
útgjöld.

f)    Reikningar félagsins skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda.

Lagabreytingar

 

16.gr.

Lögum þessum má breyta á hvaða lögmætum félagsfundi sem er, ef breytingin hefur áður verið rædd á lögmætum fundi og tillagan auglýst sérstaklega í fundarboði.  Lagabreyting er því aðeins gild að hún sé samþykkt með 2/3 greiddra atkvæða og teljast auðir og ógildir seðlar þá ekki með.  Félagsfundur sem samþykkir lagabreytingu ákveður hvenær hún tekur gildi.  Komi fram tillaga um að félagið segi sig úr félagasambandi eða tengist öðru skal fara með slíka tillögu á sama hátt og lagabreytingu.

Félagsslit

17.gr.

Félaginu verður ekki slitið nema 3/4 allra félagsmanna samþykki það að viðhafðri alsherjaratkvæðagreiðslu.  Verði samþykkt að leggja félagið niður, skal Alþýðusamband Íslands varðveita eignir þess þar til annað félag hefur verið stofnað á félagssvæðinu með sama tilgangi.  Það félag fær þá umráð eigna að fengnu samþykki miðstjórnar Alþýðusambandsins.  Um sameiningu félaga skal fjalla á sama hátt og um lagabreytingar.