Ráðstefna um starfsmenntun

Þann 8. mars sl. stóð mennta- og menningarráðuneytið fyrir ráðstefnu á Blönduósi um starfsmenntun. Markmið fundarins var m.a. að ræða framtíðarsýn starfsmenntunar (iðn- og verknám) og eflingu þess á Norðurlandi vestra. Þetta var einn fundur af mörgum sem er haldinn í tengslum við verkefni sem unnið er að í ráðuneytinu.

Frekari upplýsingar er hægt að sjá á heimasíðu mennta- og menningarráðuneytinu, með því að smella hér.

Hér á eftir fer greinargerð Ingmundar Ingvarssonar sem sótti ráðstefnuna ásamt Hrannari Gíslasyni:

8. mars síðastliðinn fóru Ingimundur Ingvarsson og Hrannar Gíslason sem fulltrúar Iðnsveinafélagsins á ráðstefnu á Blönduósi um starfsmenntun sem haldin var að frumkvæði mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Markmið fundarins er að:

– Ræða framtíðarsýn starfsmenntunar með tilliti til uppbyggingar hennar

– Ræða hvernig gera má starfsmenntun sýnilegri og eftirsóknarverðari

fyrir nemendur óháð aldri, kyni, búsetu og uppruna

– Efla samskipti og samráð hagsmunaaðila í ljósi breytinga á lögum

– Ræða framboð og eflingu starfsmenntunar í landshlutanum

– Ræða þarfir landshlutans fyrir starfsmenntun

Þátttakendur á fundinum voru fulltrúar framhaldsskóla, grunnskóla, fræðslunefnda, foreldra, atvinnulífs, framhaldsfræðsluaðila, atvinnuþróunarfélaga, nemenda, sveitarstjórna, fræðslustjórar og náms- og starfsráðgjafar

Nokkur áhugaverð ávörp voru haldin á fundinum af hálfu ráðaneytismanna, nemenda og atvinnulífs.

Þurfum við nýja sýn á starfsmenntun? Stefán Stefánsson, deildarstjóri mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Innlegg frá nemendum: Jónatan Björnsson, Guðmunda Sigrún Guðmundsdóttir.

Menntun í þágu atvinnulífsins á Norðvesturlandi, Gunnsteinn Björnsson, Loðskinn á Sauðárkróki.

Aukið gagnsæi um hæfni við námslok. Kynning á viðmiðunarramma um hæfniþrep. Björg Pétursdóttir, sérfræðingur hjá mennta- og menningarrmálaráðuneyti.

Tilhögun fundarins var með þeim hætti að fundargestum var skipt upp í hópa og fékk hver hópur tvær spurningar og síðan var kynnt sameiginleg niðurstaða hópsins. Dæmi um spurningar „Samstarf atvinnulífs, skóla og framhaldsfræðslu á Norðurlandi vestra – í hverju felst það? Þarf að efla það og þá hvernig?“.

Niðurstöður hópanna voru mjög áhugaverðar og virtust menn vera mjög sammála um svör við þeim spurningum sem bornar voru upp.

Að lokum voru niðurstöður hópanna dregnar saman og kynnt heildar niðurstaða fundarins .

 

Mín upplifun af fundinum.

Fundurinn var vel skipulagður. Vinnan á fundinum gekk hratt og greiðlega fyrir sig. Ávörpin á fundinum voru áhugaverð og sjónarmið nemenda ekki síst, einnig kynning á viðmiðunarramma um hæfnisþrep sem fyrirhugað er að nota í framtíðinni. Niðurstöður fundarins voru áhugaverðar en skyldar eftir í lausu lofti. Atvinnulífið hefði mátt koma með meiri hætti að fundinum, sérstaklega fyrirtæki með iðnaðarmenn á sínum snærum.

Helstu niðurstöður fundarins að mínu mati voru.

Auka þarf kynningastarf og kennslu í verkmenntun í grunnskólum.

Atvinnulífið þarf að koma með mun meira að uppbyggingu starfsmenntunar.

Samstarf framhalds- og grunnskóla er gott á svæðinu en það má bæta enn frekar.

Tengsl atvinnulífs og skóla er ágætt á okkar svæði en takmarkast við fáar greinar.

Auka þarf framboð af fjar- og dreifmámi og efla kynningarstarf.

Auka þarf framboð á styttri námsbrautum sem geta gefið einingar í skólakerfinu.

Bæta þarf sveigjanleika í skólakerfinu þannig að allir fái metnar einingar út úr skólanum þrátt fyrir að klára ekki.

Kanna möguleika á endurmenntun og símenntun í samvinnu atvinnulífs og skóla.

Mín niðurstaða af fundinum.

Búa þarf til grundvöll þar sem skólakerfi, atvinnulíf (vinnuveitendur og starfsfólk), nemendur og stjórnvöld vinni saman að byggja upp menntakerfi fyrir framtíðina.

Þótt að ég sé bjartsýnismaður að eðlisfari tel ég engar líkur á að að þessi fundarherferð ráðaneytisins skili miklum breytingum þar sem ekki er gert ráð fyrir frekari aðgerðum til að auka á samstarf þeirra sem málið varða.

Ingimundur Ingvarsson.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *